Votlendi

„Loftslagsbreytingar eru stærsta ógn mannkyns í þúsundir ára“  David Attenborough

  Votlendissjóðurinn vinnur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis í samstarfi við landeigendur, ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, félagssamtök og einstaklinga. Með endurheimt votlendis er leitast við að færa land í átt til fyrra horfs og skapa lífsskilyrði fyrir gróður og dýralíf sem áður ríkti. Skilyrði þess er að vatnsbúskapur á svæðunum verði í líkingu við það sem áður var. Með hækkun vatnsstöðu stöðvast rotnun jarðvegs og losun gróðurhúsalofttegunda að mestu og binding kolefnis hefst að nýju.

Votlendissjóðurinn

Votlendissjóðurinn hefur það hlutverk að vera milliliður milli þeirra sem eiga framræst land og vilja endurheimta það og þeirra sem vilja leggja til fjármagn eða vinnu til að láta endurheimta votlendi. Framkvæmdaaðilar geta lagt til tæki og mannskap. Votlendissjóðurinn skipuleggur framkvæmdir, tryggir að losun sé stöðvuð og heldur utan um allt ferlið. Fagráð sér um að þær jarðir sem unnið er með séu raunverulega með votlendisjarðveg og að framkvæmdir séu faglega unnar.

Landeigendur

Allt framræst land er í eigu einhvers og því verður að vera góð samvinna milli landeigenda og Votlendissjóðsins um framkvæmdina. Tryggja verður að endurheimt á einu landi valdi ekki tjóni hjá nágrönnum. Samvinna við sveitarfélagið er mikilvæg og að sátt sé um verkefnið.  Landeigendur geta sjálfir endurheimt og fengið loftslagsávinninginn skráðan á sig, t.d. vegna kolefnisjöfnunar framleiðslu, eða orðið framkvæmdaaðilar og fengið greiddan kostnaðinn við að endurheimta votlendi á þeirra eigin jörð.

Kaupendur

Þeir sem greiða inn í sjóðinn eða endurheimta á eigin kostnað fá staðfestingu á framlagi sínu frá Votlendissjóðum sem nýtir peningana til að endurheimta votlendi. Kaupendur og þeir sem framkvæma á eigin kostnað geta skráð ávinninginn af því í sitt loftslagsbókhald. Landeigandi fær einnig staðfestingu á því að hafa sýnt samfélagslega ábyrgð og tekið þátt í að vinna að loftslagsmálum heimsins. Endurskoðendaskrifstofa fer yfir allt bókhaldið og metur ferlið.

Rannsóknir sýna að endurheimt votlendis færir gróðurhúsalofttegundabúskap mýra í fyrra horf og því er ljóst að með slíkum aðgerðum má draga verulega úr losun

Endurheimt votlendis hefur nú verið reynd í öllum landshlutum og bæði hefur vel tekist til í nánast öllum tilvikum og aðgerðirnar til þess að gera ódýrar

Fyrir liggja  rannsóknir  og reynsla við endurheimt votlendis og því fátt í vegi fyrir því að nýta þessa ódýru leið við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.

Við getum náð gríðarlegum árangri í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að endurheimta votlendið. Innan við 15% af framræstu landi er nýtt til landbúnaðar. Það er ekki eftir neinu að bíða.

Endurheimt Votlendis

Votlendi þekur um 20% af grónu flatlendi Íslands. Stór hluti votlendis á láglendi hefur verið raskað með framræslu.

. Mest af framræslunni fór fram um og eftir miðja síðustu öld þegar ríkið styrkti framkvæmdina. Grafnir hafa verið um 34.000 km af skurðum sem röskuðu um 4200 km2 lands.

Áætlað er að nú séu um 15% eða 570 km2 lands nýttir til jarðræktar.

 

Hafðu samband, okkur langar að heyra frá þér.