Almennar leiðbeiningar um endurheimt votlendis

Þar sem halli er á landi, jafnvel þar sem hann er mjög lítill, verður að huga vel að því að rennsli vatns nái sér ekki á strik í fyrrum skurðarstæði, hvorki í botni né á yfirborði. Mikilvægt er að huga vel að flæði vatns inn og út af svæðinu, beina vatni frá gömlum skurðarstæðum og inn í gamla farvegi fyrrum mýrarlækja, séu þeir til staðar. Mikilvægt er að þjappa efninu vel ofan í skurðarstæðið. Sums staðar getur verið þörf á því að moka gróðri úr skurðarstæðinu áður en það er fyllt til að ná betri þjöppun og festu.

Þar sem rúmmál skurðanna er oft meira en rúmmál skurðaruðninga er mikilvægt að skiptast á að fylla rúmlega í skurðina og fylla tæplega í skurðina, í stað þess að fylla tæplega í skurðina alls staðar. Ekki er gott að jafna yfirborð skurðafyllinga, betra er að hafa það ójafnt og hæðótt.

Þverbönd úr torfi er gott að setja þar sem innflæði á vatni er til staðar á yfirborði en einnig með ákveðnu millibili þannig að vatn í skurðarstæðinu nái ekki rennsli á löngum kafla. Þverböndin eru gerð úr torfum/hnausum sem eru lagðar þvert á skurðarstæðið og jafnframt látin ná út fyrir það. Nauðsynlegt er að þverböndin séu um 30-40 cm hærri en skurðarbarmar og nái jafnframt vel út fyrir þá.

Þar sem stíflur eru gerðar er mikilvægt að vanda til verka. Þær ættu að vera alla vega 3-4 metra breiðar. Gott er að grafa aðeins upp úr skurðinum þannig að uppfyllingin mæti jarðvegi í skurðarstæðinu en gróður sé ekki á milli. Þjappað er með mjög reglulegu millibili þannig að ekki myndist holrými neðst sem vatn gæti runnið í gegn. Torfur eru hafðar efst, þær látnar ná vel út fyrir skurðarstæðið og yfirborð haft hærra en umhverfið.