Ferlið við endurheimt votlendis

  1. Landeigandi sem hefur áhuga á að endurheimta votlendi hefur samband við Votlendissjóðinn ( hafa samband ) Skilgreint er á skurðakorti hvaða svæði um ræðir og metið hvort það henti í úttekt. Horft er m.a. til eftirfarandi atriða:
    1. Er framræsta svæðið á tiltölulega flötu landi (ekki hallamýri)?
    2. Er ástæða til að ætla, t.d. út frá gróðri eða gróðurkorti Náttúrufræðistofnunar, skurðakorti í kortavefsjá Landbúnaðarháskólans og örnefnakorti LMÍ að hér gæti verið um að ræða framræst votlendi?
    3. Hver er vatnsstaðan í skurðum almennt?
    4. Er gott aðgengi vinnuvéla að svæðinu?

 

Ef nei, þá stoppar ferlið hér.

Ef já, þá skoðar aðili á vegum Votlendissjóðsins svæðið og tekur ljósmyndir af aðstæðum, jarðvegi og landslagi. Hann metur einnig áhrif á nærliggjandi mannvirki og landareignir annarra og sendir niðurstöðuna til framkvæmdastjóra Votlendissjóðsins.

Framkvæmdastjóri áframsendir málið á Fagráð sjóðsins sem úrskurðar hvort gagnlegt sé að fara í endurheimt. Fagráð gerir í kjölfarið verklýsingu og teiknar inn á ljósmyndir hvar stíflur, tjarnir og uppfyllingar eiga að vera. Það staðfestir einnig flatarmál landsins sem á að endurheimta á loftmynd og reiknar út áætlaða losun gróðurhúsalofttegunda í tonnum af CO2 ígildum út frá viðmiðunartölu IPCC um stöðvun á 20 tonnum af CO2 ígildum á hektara á ári.

Rætt er við landeiganda og gerður skriflegur samningur um endurheimtina. Nokkrar leiðir eru í stöðunni ( leiðir til endurheimtar ). Annars vegar að Votlendissjóðurinn sjái um endurheimtina og ráði verktaka til að annast verkið eða að sjóðurinn ráði landeigandann til þess og greiði honum fyrir. Hin leiðin er að landeigandinn sjálfur sjái um að endurheimta votlendið og standi straum af kostnaðinum. Þannig getur hann t.d. nýtt ávinninginn í kolefnisjöfnun eigin framleiðslu og sýnt samfélagslega ábyrgð í verki.

Votlendissjóðurinn upplýsir viðkomandi sveitarfélag og ef ástæða er til er nágranna um hugsanleg áhrif á landareign þeirra og fær skriflegt leyfi þeirra. Ef þörf er á er sótt um framkvæmdaleyfi hjá viðkomandi sveitarfélagi.

Framkvæmdir hefjast og verkið er unnið. Framkvæmdaraðili ber ábyrgð á að taka ljósmyndir og senda á framkvæmdastjóra Votlendissjóðsins.

Jarðvinnusérfræðingur Fagráðs fer yfir ljósmyndir og staðfestir að unnið hafi verið samkvæmt leiðbeiningum. Ef ástæða þykir til fer fulltrúi Votlendissjóðsins á staðinn og leggur mat á framkvæmdirnar.

Framkvæmdastjóri Votlendissjóðsins ber ábyrgð á því að fylgst sé með jörðinni í 3 ár í góðu samstarfi við landeigendur og aðra sem leggja verkinu lið.