Votlendissjóðurinn hefur þróað fjórar leiðir

til að vinna að endurheimt votlendis

Votlendissjóðsleiðin hentar þeim sem vilja setja fé í endurheimt votlendis og láta Votlendissjóðinn um að endurheimta það. Þeir sem leggja til fjármagn fá staðfestingu á samfélagslegri ábyrgð sinni og geta skráð það magn gróðurhúsalofttegunda sem þeir hindra losun á í loftslagsbókhald sitt.

Dæmi: Fyrirtæki kaupir 100 tonn fyrir 500.000 kr. eða einstaklingur kaupir 2 tonn fyrir 10.000 kr. og kolefnisjafnar þannig flugferðir ársins. Votlendissjóðurinn endurheimtir umbeðið magn, sér um framkvæmd og greiðir kostnað við hana. Kaupendur geta nýtt árangurinn í loftslagsbókhald sitt.

Landeigendaleiðin hentar landeigendum sem eiga framræst land og vilja sýna samfélagslega ábyrgð í loftslagsmálum í verki. Þessi leið hentar t.d. bændum sem vilja kolefnisjafna reksturinn sem og sveitarfélögum sem vilja vinna endurheimt á eigin vegum og eiga tæki til þess.
Dæmi: Eigandi ferðaþjónustufyrirtækis á framræst land sem er ekki í neinni notkun. Ferðaþjónustuaðilinn endurheimtir landið á eigin kostnað, fær ávinninginn skráðan á sig og nýtir hann í markaðslegum tilgangi og til að sýna fram á samfélagslega ábyrgð. Votlendissjóðurinn hefur milligöngu um hagkvæmt verð á olíu sem notuð er við framkvæmdina.
Fósturlandsleiðin hentar m.a. þeim sem vilja taka að sér endurheimt votlendis en eiga ekki land sjálfir. Votlendissjóðurinn er þá milliliður milli landeiganda og þess framkvæmdaraðila sem annast endurheimtina. Þessi leið hentar m.a. félagasamtökum eða verktakafyrirtækjum sem vilja endurheimta skilgreint svæði og sýna þar með samfélagslega ábyrgð í verki. Árangurinn er skráður á þann sem tekur landið í fóstur og getur hann fært árangurinn til bókar í loftslagsbókhald sitt.
Dæmi: Jarðvinnuverktaki sem á vinnuvélar og er með mannskap fær aðgang að landssvæði til að endurheimta með milligöngu Votlendissjóðsins. Ávinningurinn er allur skráður á jarðvinnuverktakann sem nýtir hann til að sýna fram á kolefnisjöfnun og samfélagslega ábyrgð. Kostnaður greiðist af verktakanum en Votlendissjóðurinn hefur milligöngu um hagkvæmt verð á olíu sem notuð er við framkvæmdina.

Stórkaupendaleiðin er valkvæð og kostnaðarlega hagkvæm fyrir þá sem óska eftir að endurheimta meira en 1.000 tonn af CO2 ígildum eða leggja stórar upphæðir, 5 milljónir kr. eða meira. Stórkaupendum stendur til boða að fá afslátt af verði á tonnum umfram 1000 tonn. Semja þarf við Votlendissjóðinn um þessa leið.