Endurheimt votlendis að Hestmýri í Borgarfirði

Fyrsta svæðið þar sem farið var út í endurheimt á vegum votlendisnefndar. Það var haustið 1996 er gömlum uppgreftri með skurðbökkum var ýtt ofan í skurði og þeim lokað. Hestmýri er um 35 ha hallamýri sem var ræst fram í tilraunaskyni af Rannsókna- stofnun landbúnaðarins fyrir um 20 árum.

Margvíslegar rannsóknir fóru þá fram í mýrinni áður en hún var ræst fram og einnig var fylgst með breytingum á henni eftir framræsluna

Rannsóknir voru hafnar aftur í mýrinni er ákveðið var að gera þar tilraun með endurheimt. Gerðar voru mælingar á gróðurfari, jarðvatnsstöðu, fugla- og skordýralífi og losun gróðurhúsalofttegunda. Ætlunin er að halda þessum rannsóknum áfram um nokkurra ára skeið til að meta árangur af endurheimt, en að þeim standa Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Líffræðistofnun Háskólans og Fuglaverndarfélag Íslands.

Mælingar sem gerðar voru á jarðvatnsstöðu í mýrinni sumarið 1997 sýna að svæðið blotnaði mikið upp við aðgerðirnar og er líklegt að gróðurfar taki að breytast þar í kjölfarið. Frekari uppýsingar um hluta af þeim rannsóknum sem fram fara í Hestmýrinni má finna

Í Hestmýrinni voru þrír 700 m langir skurðir fylltir og stíflaðir. Litlar breytingar urðu á skurðunum fyrstu tvö árin en haustið 1998 gerði mikið vatnsveður í seinni hluta ágúst og gróf vatn sig þá niður á 150 m kafla í einu skurðstæðinu þar sem vatnsrennsli var mest.

Sýnir þetta að frágangur þar sem skurðfyllingin endaði var ekki fullnægjandi en þar hefði þurft að setja einhverja rofvörn eða útbúa stíflu og útfallsrör.

Ætlunin er að lagfæra skurðinn og koma vatninu í gamlan lækjarfarveg sem það fór um áður en mýrin var ræst fram. Í Hestmýrinni er halli ekki mikill miðað við það sem víða er í hallamýrum. Þar sem verulegur halli er í landi getur reynst erfitt að fylla skurði og ganga þannig frá að vatn grafi sig ekki niður og ryðji þá.