Knattspyrnusamband Íslands hefur ákveðið að kolefnisjafna ferð landsliðsins og aðstoðarmanna þess á HM í Rússlandi síðar í þessum mánuði í samstarfi við Votlendissjóðinn. Þetta var formlega staðfest á Bessastöðum í dag þar sem Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Guðni Bergsson formaður KSÍ, Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði og Ásbjörn Björgvinsson framkvæmdastjóri Votlendissjóðsins hófust handa við að moka ofan í fyrsta skurðinn, með dyggri aðstoð annarra stuðningsaðila verkefnisins.

Birna Sigrún Hallsdóttir, umhverfisverkfræðingur hjá Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. (Environice), átti hugmyndina að kolefnisjöfnun HM-ferðarinnar, en hún hefur reiknað út þá losun gróðurhúsalofttegunda sem fyrirsjáanlega mun eiga sér stað vegna flugs og akstur knattspyrnulandsliðsins í Rússlandsferðinni. Samkvæmt þessum útreikningum mun heildarlosunin samsvara 50-60 tonnum af koldíoxíði. Þessi losun samsvarar árlegri losun frá u.þ.b. 3 hekturum af framræstu votlendi og því hefur KSÍ samið við nýstofnaðan Votlendissjóð um að endurheimta samsvarandi flatarmál. Embætti forseta Íslands hefur stutt myndarlega við þessa viðleitni með því að leggja til votlendi í landi Bessastaða, sem framræst var með skurðgreftri um miðja síðustu öld. Framlag KSÍ nægir til að breyta 3 ha af þessu landi í votlendi á nýjan leik. Þar með mun heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá íslensku landi minnka um u.þ.b. 60 tonn á ári mörg næstu ár. G.T. Verktakar hafa ákveðið að styðja verkefnið með því að koma öllu efni sem nýtt verður til að fylla í skurðina á svæðið og Fuglavernd mun síðan vakta fuglalíf á svæðinu.

Samkvæmt samkomulagi KSÍ við Votlendissjóð nýtist framlag sambandsins ekki aðeins til að kolefnisjafna Rússlandsferðina, heldur einnig til að kolefnisjafna sambærilegar ferðir knattspyrnumanna af báðum kynjum tvö næstu ár. Loftslagslegur ávinningur af endurheimtinni sem hófst formlega á Bessastöðum í dag mun þó nýtast þjóðinni og komandi kynslóðum til mun lengri tíma, enda er um varanlega endurheimt að ræða.

Hér fara á eftir nánari upplýsingar um verkefnið.

f.h. Votlendissjóðsins
Ásbjörn Björgvinsson
Framkvæmdastjóri
s- 891-9820
abbi@votlendi.is
www.votlendi.is

Loftslagsbreytingar

Hlýnun jarðar er óumdeilanleg og fordæmalausar breytingar hafa átt sér stað frá því um miðbik síðustu aldar. Lofthjúpurinn og heimshöfin hafa hlýnað, dregið hefur úr magni og útbreiðslu íss auk þess sem sjávarborð hefur hækkað og styrkur gróðurhúsalofttegunda aukist. Þá hefur sýrustig sjávar lækkað frá iðnbyltingu og eru ummerki þess á lífríki þegar merkjanleg. Vegna loftslagsbreytinga hefur útbreiðsla ýmissa dýrategunda breyst, bæði á landi og í sjó. Loftslagsbreytingar hafa oftar neikvæð en jákvæð áhrif á jarðrækt og loftslagstengd náttúruvá hefur oft neikvæð áhrif á lífsbjargir, sérstaklega hjá fátækari hópum. Á þessari öld er búist við að hlýnun haldi áfram og að hitabylgjur verði lengri og tíðari. Búist er við  að úrkoma muni minnka á þurrum svæðum en aukast á úrkomusömum svæðum, auk þess sem líklegt er að aftakaúrkoma verði víða ákafari og tíðari. Þurrkum, flóðum og aurskriðum mun fjölga, skógareldar aukast, ís mun halda áfram að bráðna og sjávarborð hækka. Sjórinn mun áfram súrna og hlýna og kóralrif bleikjast. Erfitt er að spá nákvæm­lega fyrir um sam­tvinnuð áhrif súrn­unar og varma­söfn­unar sjáv­ar, en meðal lík­legra afleið­inga er lækk­andi súr­efn­is­styrk­ur, hækkun sjáv­ar­borðs, breyt­ingar á hringrás sjávar og breyt­ingar á frum­fram­leiðslu og vist­kerfum sjáv­ar.

Á Íslandi munu jöklar áfram hopa og þynnast og jökulár breyta um farveg. Aukning verður á útbreiðslu gróðurs og hlýnunin mun hafa áhrif á fugla og fiska. Auknar líkur verða á eldgosum og aurskriðum. Golfstraumurinn gæti veikst. Súrnun sjávar er hraðari á hafsvæðinu við Ísland en víðast annars staðar. Því er líklegt að neikvæð áhrif súrnunar á vistkerfi sjávar komi fyrr fram á íslenskum hafsvæðum en að jafnaði í heimshöfunum. Eina leiðin til að snúa þessari þróun við er að draga hratt úr losun.

Losun gróðurhúsalofttegunda-hátt kolefnisspor á Íslandi

Þjóðir heims hafa sammælst um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, nú síðast með samkomulagi sem gert var í París árið 2015. Evrópusambandið hefur sett sér markmið um draga úr losun um 40% fyrir árið 2030 miðað við árið 1990 og hyggst Ísland taka þátt í þessu markmiði. Losun Evrópusambandsríkjanna hefur dregist saman um 24% frá árinu 1990 og er útlit fyrir að sambandið muni ná markmiði sínu um samdrátt í losun. Losun hérlendis hefur á sama tíma aukist um 28%.

Losun á hvern íbúa hérlendis er há í öllum samanburði við Evrópuríkin. Ef öll losun er talin með er losun á hvern íbúa hérlendis 47,2 tonn samanborið við 8 tonn á íbúa í Evrópu. Þegar tölur á milli landa er bornar saman er losun vegna landnotkunar og alþjóðaflugs yfirleitt sleppt.[1] Þrátt fyrir að þessum þáttum losunar sé sleppt er kolefnisspor Íslands hátt eða 13,9 tonn á hvern íbúa sem er 67% hærra en losun á hvern Evrópubúa. Losun iðnaðar er talsverð hérlendis. Þau fyrirtæki sem framleiða ál, kísil og kísiljárn taka þátt í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Sé losun sem fellur undir viðskipta-kerfið undanskilin í samanburðinum er losun hér á landi 8,6 tonn á hvern íbúa eða um 73% hærri en á hvern íbúa í Evrópu. Losunin hér er því ótrúlega há, sér í lagi þegar haft er í huga að bæði rafmagns- og hitaframleiðsla á Íslandi losar lítið af gróðurhúsalofttegundum enda unnin með vatnsafli og jarðhita.

[1] Losun vegna landnotkunar er sleppt annars vegar vegna mikillar vísindalegrar óvissu sem tengist mati á losun og bindingu vegna landnotkunar og hins vegar þar sem erfitt er að greina á milli manngerðrar og náttúrulegrar losunar. Losun vegna alþjóðaflugs er sleppt þar sem slík losun heyrir ekki undir alþjóðlegar skuldbindingar um að draga úr losun. Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO) er þó að þróa kerfi til að draga úr losun frá millilandaflugi sem útlit er fyrir að Ísland muni taka þátt í innan fárra ára.

Af framansögðu er ljóst að losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis er mikil og að lítið hefur verið gert síðustu ár og áratugi til að draga úr losun. Afleið­ingar auk­innar los­unar gróð­ur­húsa­loft­teg­unda og lofts­lags­breyt­inga fyrir Ísland hafa hins vegar verið að koma betur í ljós og leikur eng­inn vafi á að hags­munir Íslend­inga eru gríð­ar­mikl­ir. Sem dæmi má nefna að jöklar munu bráðna, sem mun hugs­an­lega auka orku­getu vatns­afls­virkj­ana til skamms tíma, en er grafal­var­legt fyrir orku­vinnslu hér­lend­is til lengri tíma litið. Fáar þjóðir eiga jafn­mikið undir hrein­leika og verndun hafs­ins og Íslend­ing­ar, en nú er vitað að súrnun sjávar vegna los­unar koldí­oxíðs getur haft alvar­leg áhrif á líf­ríki hafs­ins og fisk­veiðar í íslenskri lög­sögu. Talið er að höfin hafi tekið upp um þriðj­ung af öllu því koldí­oxíði sem losað hefur verið í and­rúms­loftið af manna­völdum frá iðn­bylt­ingu. Nýverið hefur athyglin einnig beinst að öllum þeim varma sem hafið hefur tekið við, en hafið tók við meira en 90% af þeirri varma­orku sem aukin gróð­ur­húsa­á­hrif ollu á tímabilinu 1970-2010. Sá eig­in­leiki hafs­ins að taka upp koldí­oxíð og varma hefur fórn­ar­kostnað í för með sér.

Það er sann­ar­lega kom­inn tími til að hrinda af stað raun­veru­legu átaki til að vernda hags­muni Íslands og sýna á sama tíma ábyrgð gagn­vart hnatt­rænum afleið­ingum lofts­lags­breyt­inga.

Kolefnisjöfnun HM2018 í Rússlandi

Í þeirri vegferð sem framundan er við að draga úr losun er ljóst að allir verða að leggjast á eitt: stjórnvöld, fyrirtæki og almenningur í landinu. KSÍ hefur í samráði við Umhverfisráðgjöf Íslands ákveðið að kolefnisjafna ferðalag landsliðsmanna og fylgdarliðs vegna þátttöku liðsins á HM í Rússlandi árið 2018. Með því vill KSÍ slá þann tón sem nauðsynlegur er til að draga úr losun á öllum sviðum íslensks samfélags, taka ábyrgð og vonast um leið til að geta verið öðrum Íslendingum innblástur í því mikilvæga verkefni sem framundan er. Umhverfisráðgjöf Íslands hefur slegið á þá losun sem mun eiga sér stað vegna flugs og akstur í tengslum við landsleikina í Rússlandi. Miðað við þátttöku í D-riðli, grunnbúðir í Gelandzhik og flugferðum í leiki liðsins til Moskvu, Volgograd og Rostov, auk losunar vegna aksturs, gæti losun liðsins og aðstoðarmanna (samtals um 50 manns) verið um 50 – 60 tonn af koldíoxíði. KSÍ hefur ákveðið að ganga til liðs við nýstofnaðan Votlendissjóð og endurheimta votlendi til móts við þessa losun.

Í kjölfar framræslu lands lækkar vatnsyfirborð og súrefni kemst niður í svörðinn. Þetta verður til þess að lífrænt efni sem safnast hefur upp í jarðveginum öldum og árþúsundum saman brotnar niður og losnar út í andrúmsloftið sem koldíoxíð í áratugi eftir að landið var ræst fram. Með endurheimt votlendis er komið í veg fyrir áframhaldandi losun frá framræstu landi, árangurinn kemur fljótt fram og varir í langan tíma. Endurheimt votlendis í tengslum við HM2018 verður í landi Bessastaða og munu framkvæmdir hefjast sumarið 2018. Til að staðfesta raunverulegan árangur munu sérfræðingar Landgræðslu ríkisins meta losun gróðurhúsalofttegunda fyrir og eftir endurheimt og fylgjast með breytingum á hæð grunnvatns.

Lokaorð: KSÍ er með áætlun til að bregðast við fyrirséðum og ófyrirséðum atburðum í tengslum við þátttöku Íslands á HM í Rússlandi, þ.e. eins konar „Plan B“ og jafnvel „Plan C“. Með kolefnisjöfnun Rússlandsferðarinnar sýnir KSÍ ábyrgð og áhuga á því mikilvæga málefni samtímans sem loftslagsbreytingar af mannavöldum eru. Þegar kemur að framtíð plánetunnar okkar er nefnilega eina leiðin að draga hratt og örugglega úr losun gróðurhúsalofttegunda – í því samhengi er ekkert „Plan B“ í boði!

Reykjavík 28.5.2018
Birna Sigrún Hallsdóttir
Umhverfisráðgjöf Íslands

 

Heimildir:

  1. Halldór Björnsson, Bjarni D. Sigurðsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur S. Ástþórsson, Snjólaug Ólafsdóttir, Trausti Baldursson, Trausti Jónsson. 2018. Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi – Skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar 2018. Veðurstofa Íslands.
  2. Birna Sigrún Hallsdóttir, Hrafnhildur Bragadóttir, 2016. Hvað ætlar ný ríkisstjórn að gera í loftslagsmálum. Grein birt í Kjarnanum, https://kjarninn.is/skodun/2016-09-30-hvad-aetlar-ny-rikisstjorn-ad-gera-i-loftslagsmalum/
  3. Gögn um losun gróðurhúsalofttegunda af heimasíðu loftslagssamnings SÞ, https://unfccc.int/process-and-meetings/transparency-and-reporting/reporting-and-review-under-the-convention/greenhouse-gas-inventories-annex-i-parties/national-inventory-submissions-2018
  4. Gögn um losun gróðurhúsalofttegunda af heimasíðu Umhverfisstofnunar Evrópu, https://www.eea.europa.eu/data-and-maps/indicators/greenhouse-gas-emission-trends-6/assessment-1
  5. Votlendissjóðurinn, 2018. Um Votlendissjóðinn – kynningarefni frá Votlendissjóðnum.