Mikilvægt er að undirbúa endurheimt vel. Leita þarf samþykkis landeigenda og sátt þarf að ríkja um fyrirhugaðar aðgerðir granna á milli.  Huga þarf vel að því landi sem endurheimta á og meta hvort eitthvað muni fara forgörðum.

Kanna þarf streymi vatns og íhuga hvort skurðafyllingar, stíflur eða garðar standist álag í leysingum og stórrigningum.

Gæta verður að umferð búpenings og manna og sporna við slysahættu. Æskilegt er að skrá helstu einkenni í lífríki svo hægt sé að fylgjast með árangri.