Mikið hefur gengið á votlendi landsins undanfarna áratugi. Í kjölfar jarðræktarlaga (1923) og með tilkomu stórvirkra vinnuvéla á fimmta áratug þessarar aldar, urðu þáttaskil í nýtingu mýrlendis hér á landi. Upphófst þá tímabil stórfelldrar framræslu sem styrkt var með framlögum úr opinberum sjóðum.
Til að byrja með voru láglendismýrar, sem eru víða frjósamar og vel fallnar til ræktunar, ræstar fram til túngerðar. Seinna meir jókst mjög framræsla mýra til að bæta þær sem beitiland. Vegagerð og þéttbýlismyndun hafa einnig tekið sinn toll og við virkjanir fallvatna hefur straumvötnum verið breytt og landi sökkt undir miðlunarlón.
Nú er svo komið að tiltölulega lítið er eftir af óröskuðu votlendi á láglendi. Sem dæmi má nefna að athuganir hafa leitt í ljós að einungis 3% alls votlendis á Suðurlandi er eftir óraskað og einungis 18% votlendis á Vesturlandi (sjá: Íslensk votlendi. Verndun og nýting – Háskólaútgáfan 1998).
Þessi saga hnignunar votlendis hér á landi er ekki einsdæmi; svipaða sögu er að segja um allan heim þar sem örar tækniframfarir hafa orðið.
Eyþór Eðvarðsson frumkvöðull, stofnandi og fyrsti stjórnarformaður Votlendissjóðsins tók saman mikið af myndböndum með helstu sérfræðingum um endurheimt votlendis á Íslandi. Viðtölin geyma mikið af fróðleik sem svarar mörgum spurningum af meiri dýpt en víða er gert.
Myndböndin má finna hér https://vimeo.com/user38459885
Leiðbeiningar fyrir framkvæmdaraðila
Bændablaðið
Endurheimt votlendis
Um endurheimt votlendis -
Skipulag og leyfi
VERNDUN VOTLENDIS, Aðgerðir I.4 á grundvelli aðgerðaáætlunar í loftslagsmálumndur
Kolefnisspor Suðurlands
skýrsla unnin af Stefáni Gíslasyni fyrir SASS
Loftslag, kolefni og mold. Rit Land-búnaðar háskóla Íslands nr 133
Endurheimt votlendis Aðgerða- áætlun 2016
IPCC er skammstöfun á Intergovernmental Panel on Climate Change og hefur á Íslandi verið kölluð Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.
Nefndin tekur saman vísindalegar, tæknilegar, félags- og efnahagslegar upplýsingar um loftslagsbreytingar af mannavöldum. IPCC stundar ekki rannsóknir heldur byggir mat sitt á bestu upplýsingum, rannsóknum og mati færustu vísindamanna heimsins.
IPCC viðurkennir ákveðnar aðferðir til að takast á við loftslagsbreytingarnar og leggur til aðferðafræði til að vinna eftir. Endurheimt votlendis er viðurkennd af IPCC sem fullgild aðferð til að takast á við loftslagsbreytingarnar.
Endurheimt framræsts votlendis er ein af þeim aðgerðum sem IPCC viðurkennir sem gilda aðgerð til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Í votum mýrum safnast upp lífrænt efni sökum þess að gróðurleifar rotna ekki vegna skorts á súrefni. Gróðurinn þjappast því saman undir vatninu og myndar með tímanum mólag, lífrænt efni sem geymir mikla orku. Þegar votlendi er ræst fram með skurðum og vatn hverfur frá, hefst niðurbrot eða rotnun þessa lífræna efnis þegar örverur nýta sér orkuna úr því og við það losnar koldíoxíð út í andrúmsloftið. Þetta getur átt sér stað áratugum og árhundruðum eftir að lífræna efnið myndaðist. Þegar vatni er aftur hleypt á votlendi stöðvast niðurbrotið tiltölulega hratt því súrefni er ekki lengur til staðar fyrir niðurbrotsörverurnar. Þá fara af stað mun hægvirkari örverur sem geta starfað án súrefnis og losa metan sem er mjög virk gróðurhúsalofttegund. Það ferli er hins vegar um þúsund sinnum hægara og því mikill ávinningur af því frá loftslagssjónarmiði að halda mýrum blautum og hafa lífræna efnið áfram bundið í jörðu.
Mat á losun gróðurhúsalofttegunda frá mýrum á Íslandi og annars staðar í heiminum hefur verið gert með tvennum hætti. Annars vegar með mælingum á loftskiptum jarðvegs og gróðurs þar sem binding eða losun gróðurhúsalofttegunda er metin á ákveðnum tímapunkti, og hins vegar með samanburði á langtíma breytingum á kolefnisforða jarðvegs í framræstum og óframræstum mýrum.
Við mælingar á loftskiptum er flæði lofttegunda í og úr jarðvegi og gróðri kannað með reglulegu millibili þannig að hægt sé að áætla losun yfir gefið tímabil. Slíkar mælingar hafa verið notaðar til að meta losun gróðurhúsalofttegunda á sex framræstum svæðum á Vesturlandi.
Við mat á langtímabreytingum á kolefnisforða jarðvegs í kjölfar framræslu er magn kolefnis í jarðvegi framræstra og óraskaðra mýra borið saman. Mismunurinn á magni kolefnisins segir til um hversu mikið kolefni hefur losnað síðan viðkomandi svæði var ræst fram. Slíkar mælingar hafa verið notaðar til að meta losun gróðurhúsalofttegunda á átta svæðum á Suður- og Suðvesturlandi.
Þessar tvær mæliaðferðir gefa niðurstöður um losun gróðurhúsalofttegunda á flatareiningu lands sem ásamt mati á umfangi framræslu eru notaðar til að reikna heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu landi.
Íslenskar mýrar eru steinefnaríkari en mýrar á sambærilegum stöðum á jörðinni. Það skýrist af ösku frá eldfjöllunum sem sest í mýrarnar. Mest eru áhrif steinefnanna næst gosbeltinu og minnst fjær gosbeltinu.
Metan er lyktarlaus lofttegund sem myndast við rotnun á lífrænu efni þar sem súrefni er ekki til staðar (loftfirrðar aðstæður).
Metan er ein þriggja megingróðurhúsalofttegunda, hinar eru koldíoxíð og hláturgas. Metan myndast t.d. í votlendi, á hrísgrjónaökrum, urðunarstöðum og í maga jórturdýra. Einnig losnar verulegt magn metans út í andrúmsloftið við vinnslu á jarðefnaeldsneyti.
Í blautum mýrum myndast metan við rotnun lífrænna efna, en ferlið er það hægfara að það hefur ekki við uppsöfnun gróðurleifa. Við framræslu mýra leitar súrefni ofan í jarðveginn og upphefst þá rotnun gróðurleifanna við loftaðar aðstæður, sem leiðir til verulegrar losunar á koldíoxíð.
Við endurheimt mýra blotnar aftur upp í jarðveginum sem kemur í veg fyrir loftaða rotnun og þar með losun koldíoxíðs, en leiðir aftur á móti til myndunar metans, líkt og í óröskuðu mýrlendi. Þar sem metan er ríflega 20 sinnum sterkari gróðurhúsalofttegund en koldíoxíð mætti ætla að þetta væri áhyggjuefni, en svo er ekki því verulegur styrksmunur er á losun þessara tveggja efna þar sem magn metans er margfalt minna en magn koldíoxíðs.
Loftslagsávinningurinn af því að endurheimta mýrar er því mjög mikill, þrátt fyrir myndun metans.
Hláturgas (N2O) er mjög öflug gróðurhúsalofttegund. Hvert gramm af hláturgasi hefur um 300 sinnum meiri áhrif til hlýnunar en hvert gram af koltvísýringi (CO2).
Hláturgas myndast í tveimur lífrænum ferlum, annars vegar við afoxun ammonium (NH4+) í nítrat (NO3-), og hins vegar nítrats í köfnunarefni (N2). Bæði ferlin eru hvötuð af örverum, sem nýta sér orkuna sem losnar í ferlunum. Hláturgas myndast sem milliefni í báðum ferlunum. Verði truflanir á ferlunum getur það safnast tímabundið upp í jarðvegi eða annars staðar þar sem ferlin eiga sér stað. Þetta hláturgas leitar svo út úr jarðveginum. Við niðurbrot lífrænna efna við framræslu verður til ammonium, sem er umbreytt í nítrat og köfnunarefni með hláturgas sem milliefni. Bæði ammonium og nítrat eru einnig í áburði.
Margir þættir geta haft áhrif á myndun hláturgass í jarðvegi og er losun þess að sama skapi ójöfn. Magn þess sem losnar er mun minna en magn koltvísýrings en það er að hluta til vegið upp með margföldum áhrifum þess gagnvart hlýnun.
Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á Íslandi sýna að losun gróðurhúsalofttegunda úr röskuðu og framræstu votlendi er sambærileg við það sem er á sambærilegum stöðum á hnettinum eða um 20 tonn af CO2 ígildum á hektara.
Ef losunartölurnar eru reiknaðar miðað við flatarmál framræsts eða raskaðs votlendis má áætla að losun gróðurhúsalofttegunda frá röskuðu eða framræstu votlendi sé töluvert meira en helmingur af þekktri heildarlosun Íslands.
Tilgangur framræsluskurða er að lækka vatnsyfirborðið í jarðveginum. Losunin sem slík kemur ekki frá skurðinum sjálfum eða skurðgarbörðunum eða rofinu þar sem sést í moldina. Þetta er algengur misskilingur.
Losunin kemur hinsvegar í kjölfar þess að svæðið í kringum skurðin þornar upp og loft kemst í jarðveginn sem áður var eingangarð í vatninu og þá fara ár þúsundir jarðvegsleyfa að rotna. Við rotnunina losna Koldíxíð ígildi út í andrúmsloftið.
Vatnið sem var í mýrinni hafði komið í veg fyrir að þetta rotunarferlið hæfist.
Í votlendi safnast upp órotnaðar jurtaleifar sem rotna ekki þar sem súrefni kemst ekki að þeim vegna vatnsins. Þegar vatnið er tekið af votlendinu eins og með framræsingu kemst súrefni ofan í jarðveginn og koltvísýringur (CO2) losnar í miklu magni (20 tonn af CO2 á hektara) þegar nokkur hundruð eða þúsund ára gamlar jurtaleifarnar byrja að rotna.
Rotnunin heldur áfram á meðan eitthvað er til að rotna og jarðvegurinn (órotnuðu jurtaleifarnar) breytist í gróðurhúsalofttegundir. Þetta ferli getur tekið hundruðir ára, allt eftir þykkt jarðvegsins.
Þegar rignir á framræst land leka næringarefnin úr jarðveginum með rigningarvatninu út í skurðina og til sjávar. Líkja má ferlinu við það sem gerist þegar helt er uppá kaffi í mörg skipti án þess að skipta um kaffi. Lítil vit er í því að eyðileggja kraftmikinn mýrarjarðveginn með því að láta næringarefnin renna burt með rigningarvatninu.
Algengaur misskilningur um endurheimt votlendis
Votlendi/mýrar eru sérstakar því gróður sem vex í þeim rotnar ekki nema að mjög litlu leyti og safnast því fyrir. Ástæðan fyrir því er að vegna vatnsins er ekkert súrefni til staðar og því ekki skilyrði fyrir örverur til að brjóta niður lífræna efnið og breyta því í CO2 (koltvísýring). Munurinn á gróðri í votlendi og t.d. graslendisgróðri er að graslendisgróður sölnar og rotnar að hausti og losar sama magn af CO2 og hann batt yfir sumarið. Í votlendi safnast saman órotnaðar jurtaleifar í oft mjög þykk mólög í hundruðir eða þúsundir ára. Þegar votlendi er framræst fer vatnið úr jarðveginum og skilyrði skapast fyrir örverur til að brjóta niður lífræna efnið. Rotnun hefst og þar með losun á CO2. Fyrir framræstar mýrar í okkar loftlagsbelti nemur losunin um 20 tonnum af CO2 á hektara á ári. Til samanburðar losar ný bifreið um 2 tonn af CO2 á ári. Einn fótboltavöllur er tæpur 1 hektari.
Metanið er um 25 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur (CO2) en magn þess á flatarmálseiningu er 200 falt minna. Ef magnið er fært yfir í CO2 ígildi jafngildir það 3 tonnum af CO2 á hektara á ári. Nettó ávinningurinn af endurheimt votlendis er því 20 tonn af CO2 á hektara á ári. Hægt er að hafa áhrif á magn losunar metansins með því að hafa vatnsyfirborðið rétt undir yfirborði jarðvegsins.
Enginn losunarflokkur í loftslagsbókhaldi Íslands er ábyrgur fyrir jafn mikilli losun af gróðurhúsalofttegundum og framræst votlendi, eins og kemur fram á meðfylgjandi mynd þar sem LULUCF er votlendi.
Íslenskar mýrar, sérstaklega nálægt gosbeltinu, innihalda meira af steinefnum/gosefnum en mýrar á sambærilegum stöðum á hnettinum. Steinefnin hafa þau áhrif að losunin er umtalsvert meiri en frá mýrum sem innihalda minna af steinefnum.
Rannsóknir Susanne Möckel við Háskóla Íslands sýna þetta ótvírætt. Viðtal við hana má finna á Votlendi.is eða á https://vimeo.com/309655915?fbclid=IwAR3ZUB2Ic68Aig7SI9Y900vGyh-kMU60P_Nr-8LG_hwgC4myFYFZhNx6Ixs
https://skemman.is/handle/1946/26191
Niðurstöður rannsókna sem hafa verið gerðar og eru í gangi gefa ekki tilefni til að ætla að losun frá íslenskum mýrum sé almennt frábrugðin losun frá mýrum á sambærilegum stöðum á hnettinum. Sjá einnig umræðu um steinefnin í rangfærslu 3. Rannsóknir Gunnhildar Evu Gunnarsdóttir á sextán framræstum og óframræstum mýrum á Suðurlandi og rannsóknir Hlyns Óskarssonar og Jóns Guðmundssonar frá Landbúnaðarháskólanum og Rannveigar Ólafsdóttur á svæðum á Vesturlandi sýna þetta glöggt.
Öflugustu leiðirnar til að takast á við loftslagsvandann hérlendis eru að endurheimta votlendi, græða upp illa farið land og rækta tré. Jarðvegur framræsta landsins heldur áfram að losa gróðurhúsalofttegundir þó að tré séu gróðursett í hann. Besta niðurstaðan fyrir loftslagið er að endurheimta votlendi, rækta upp tré þar sem gott er að rækta tré (ekki í votlendi) og ná gróðurþekju á illa farið land.
Skurðir grafnir í votlendi losa gróðurhúsalofttegundir, en það sem mestu máli skiptir er allt svæðið sem skurðurinn framræsir, sem getur verið mjög stórt og allt upp í nokkur hundruð metra í hvora átt frá skurðinum. Um leið og vatn fer úr jarðveginum kemst súrefni ofan í hann og skilyrði skapast fyrir örverur til að hefja niðurbrot á lífrænu efni. Kolefni tapast og hraðinn á tapinu jafngildir því að jarðvegurinn þynnist um hálfan sentimetra á ári. Það tekur metersþykkt mólag því 200 ár að rotna og verða að lofttegund. Það er ekki langt síðan framræsla hófst á Íslandi svo ástæða er til að ætla að flest framræst svæði á Íslandi séu enn að losa gróðurhúsalofttegundir af fullum krafti. Það skiptir litlu hvort skurður er gróinn eða ekki. Lífræna framræsta efnið heldur áfram að rotna á meðan eitthvað er til að rotna.
Tölurnar um losun gróðurhúsalofttegunda á hverja flatarmálseiningu eru orðnar nokkuð góðar en flókið mál er að meta stærð alls framræsts lands á Íslandi. Með betri loftmyndum og nákvæmari skurðakortum og gróðurkortum er hægt að álykta betur um heildarflatarmálið. En ef við gefum okkur að losunin frá votlendinu sé helmingi minni en talið er þá er hún samt sem áður svipuð eða meiri en allir hinir losunarflokkar Íslands til samans.
Votlendissjóður
Árleyni 22 - 112 Reykjavík
Kennitala 620518-1230
Banki 537-26-516