Ferlið við endurheimt votlendis


Landeigandi sem hefur áhuga á að endurheimta votlendi hefur samband við Votlendissjóðinn ( hafa samband ) Skilgreint er á skurðakorti hvaða svæði um ræðir og metið hvort það henti í úttekt. Horft er m.a. til eftirfarandi atriða:

Framræsta

Er framræsta svæðið á tiltölulega flötu landi (ekki hallamýri)?

Framræst votlendi

Er ástæða til að ætla, t.d. út frá gróðri eða gróðurkorti Náttúrufræðistofnunar, skurðakorti í kortavefsjá Landbúnaðarháskólans og örnefnakorti LMÍ að hér gæti verið um að ræða framræst votlendi?

Vatnsstaða

Hver er vatnsstaðan í skurðum almennt?

Aðgengi vinnuvéla

Er gott aðgengi vinnuvéla að svæðinu?

Ef nei


Þá stoppar ferlið hér.

Ef já


 þá skoðar aðili á vegum Votlendissjóðsins svæðið og tekur ljósmyndir af aðstæðum, jarðvegi og landslagi. Hann metur einnig áhrif á nærliggjandi mannvirki og landareignir annarra og sendir niðurstöðuna til framkvæmdastjóra Votlendissjóðsins.

Skref 1 

Framkvæmdastjóri áframsendir málið á Fagráð sjóðsins sem úrskurðar hvort gagnlegt sé að fara í endurheimt. Fagráð gerir í kjölfarið verklýsingu og teiknar inn á ljósmyndir hvar stíflur, tjarnir og uppfyllingar eiga að vera. Það staðfestir einnig flatarmál landsins sem á að endurheimta á loftmynd og reiknar út áætlaða losun gróðurhúsalofttegunda í tonnum af CO2 ígildum út frá viðmiðunartölu IPCC um stöðvun á 20 tonnum af CO2 ígildum á hektara á ári.


Skref 2

Rætt er við landeiganda og gerður skriflegur samningur um endurheimtina. Nokkrar leiðir eru í stöðunni ( leiðir til endurheimtar ). Annars vegar að Votlendissjóðurinn sjái um endurheimtina og ráði verktaka til að annast verkið eða að sjóðurinn ráði landeigandann til þess og greiði honum fyrir. Hin leiðin er að landeigandinn sjálfur sjái um að endurheimta votlendið og standi straum af kostnaðinum. Þannig getur hann t.d. nýtt ávinninginn í kolefnisjöfnun eigin framleiðslu og sýnt samfélagslega ábyrgð í verki.


Skref 3 

Votlendissjóðurinn upplýsir viðkomandi sveitarfélag og ef ástæða er til er nágranna um hugsanleg áhrif á landareign þeirra og fær skriflegt leyfi þeirra. Ef þörf er á er sótt um framkvæmdaleyfi hjá viðkomandi sveitarfélagi.


Skref 4

Framkvæmdir hefjast og verkið er unnið. Framkvæmdaraðili ber ábyrgð á að taka ljósmyndir og senda á framkvæmdastjóra Votlendissjóðsins.


Skref 5

Jarðvinnusérfræðingur Fagráðs fer yfir ljósmyndir og staðfestir að unnið hafi verið samkvæmt leiðbeiningum. Ef ástæða þykir til fer fulltrúi Votlendissjóðsins á staðinn og leggur mat á framkvæmdirnar.


Skref 6

Framkvæmdastjóri Votlendissjóðsins ber ábyrgð á því að fylgst sé með jörðinni í 3 ár í góðu samstarfi við landeigendur og aðra sem leggja verkinu lið.


Almennar leiðbeiningar um endurheimt votlendis


Skref 1

Þar sem halli er á landi, jafnvel þar sem hann er mjög lítill, verður að huga vel að því að rennsli vatns nái sér ekki á strik í fyrrum skurðarstæði, hvorki í botni né á yfirborði. Mikilvægt er að huga vel að flæði vatns inn og út af svæðinu, beina vatni frá gömlum skurðarstæðum og inn í gamla farvegi fyrrum mýrarlækja, séu þeir til staðar. Mikilvægt er að þjappa efninu vel ofan í skurðarstæðið. Sums staðar getur verið þörf á því að moka gróðri úr skurðarstæðinu áður en það er fyllt til að ná betri þjöppun og festu.


Skref 2

Þar sem rúmmál skurðanna er oft meira en rúmmál skurðaruðninga er mikilvægt að skiptast á að fylla rúmlega í skurðina og fylla tæplega í skurðina, í stað þess að fylla tæplega í skurðina alls staðar. Ekki er gott að jafna yfirborð skurðafyllinga, betra er að hafa það ójafnt og hæðótt.


Skref 3

Þverbönd úr torfi er gott að setja þar sem innflæði á vatni er til staðar á yfirborði en einnig með ákveðnu millibili þannig að vatn í skurðarstæðinu nái ekki rennsli á löngum kafla. Þverböndin eru gerð úr torfum/hnausum sem eru lagðar þvert á skurðarstæðið og jafnframt látin ná út fyrir það. Nauðsynlegt er að þverböndin séu um 30-40 cm hærri en skurðarbarmar og nái jafnframt vel út fyrir þá.


Skref 4

Þar sem stíflur eru gerðar er mikilvægt að vanda til verka. Þær ættu að vera alla vega 3-4 metra breiðar. Gott er að grafa aðeins upp úr skurðinum þannig að uppfyllingin mæti jarðvegi í skurðarstæðinu en gróður sé ekki á milli. Þjappað er með mjög reglulegu millibili þannig að ekki myndist holrými neðst sem vatn gæti runnið í gegn. Torfur eru hafðar efst, þær látnar ná vel út fyrir skurðarstæðið og yfirborð haft hærra en umhverfið.


Kortavefsjá Landbúnaðarháskólans

Á vef Landbúnaðarháskólans er að finna Kortavefsjána en sérfræðingar háskólans hafa skráð inn nær alla skurði landsins og jarðvegskort, nytjaland og svokallað LULUCF (Land Use, Land-Use Change and Forestry). Einnig er hægt að bæta við hæðarskyggingu til að sjá halla.

Undir LULUCF má sjá mismunandi liti á landinu sem standa fyrir mismunandi gróður og jarðveg.
Einnig er hægt að reikna vegalengdir skurða og flatarmál framræsts lands.

Með því að nota músina er hægt að komast nær í myndinni og skoða aðstæður.

Á kortinu má greinilega sjá hversu mikið af framræstu landi er ekki í neinni notkun og hversu gríðarlega mikið af gróðurhúsalofttegundum er hægt að stöðva með þv að endurheimta það land.

Slóðin á kortavefsjána má finna
Share by: