Votlendi sem landslagseining hefur mikið og margvíslegt gildi.  Þannig getur votlendi haft afgerandi áhrif á hringrásir vatns og næringarefna, jafnframt því að auka verulega við líffræðilega fjölbreytni viðkomandi svæðis.  Mikilvægi votlendis má flokka á eftirfarandi hátt:

Vatnsfræðilegt gildi:  Í miklum rigningum taka votlendissvæði til sín vatn, en miðla vatni frá sér í þurrkatíð.  Á þann hátt viðhalda votlendissvæði jöfnu rennsli í lækjum og ám, en jafnt rennsli straumvatna er mikilvægt fyrir þær lífverur sem þar búa, s.s. laxfiska.  

Næringarefnafræðilegt gildi: Við vöxt taka jurtir til sín koltvísýring úr andrúmslofti. Við niðurbrot jurtaleifa skilar koltvísýringurinn sér út í loftið aftur.  En vegna hárrar jarðvatnsstöðu mýra er niðurbrot jurtaleifa hægfara og afleiðing þess er sú að með tímanum safnast jurtaleifar fyrir og mynda mólög. 

Mýrar hafa því að geyma óhemju magn af kolefni og allar breytingar í kolefnisbúskap þessara vistkerfa því mikilvægar á hnattræna vísu.  

Breytingar á ytri aðstæðum, s.s. hækkun meðalhitastigs eða lækkun vatnsstöðu, geta haft afdrifarík áhrif á kolefnisbúskap þessara vistkerfa og jafnvel leitt til nettó losunar kolefnis. Stór hluti votlendis hér á landi hefur þegar tekið miklum breytingum vegna breyttrar vatnstöðu í kjölfar framræslu.  

Vistfræðilegt gildi:  Votlendi er mikilvægt búsvæði fugla og plantna og fjölmargar tegundir byggja tilvist sína á því. Tilvist votlendis eykur því verulega við líffræðilega fjölbreytni viðkomandi landsvæðis.