Hlutverk sjóðsins er að vinna að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis í samstarfi við landeigendur, ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga. Rannsóknir sýna að framræst votlendi ber ábyrgð á mikilli losun koldíoxíðs hér á Íslandi. Endurheimt votlendis er ein öflugasta leiðin í baráttunni við loftslags breytingarnar. Kíktu á síðustu framkvæmdir Votlendissjóðs á Youtube rás sjóðsins
Verndari Votlendissjóðsins er Forseti Íslands.
Hér fyrir neðan er hægt að lesa um framgang helstu verkefna og annarra mála hjá Votlendissjóð. Hægt er að komast á póstlistann okkar með því að senda okkur póst á votlendi@votlendi.is merktan “póstlisti”.
Votlendi
Votlendissjóðurinn hefur það hlutverk að vera milliliður milli þeirra sem eiga framræst land og vilja endurheimta það og þeirra sem vilja leggja til fjármagn eða vinnu til að láta endurheimta votlendi. Framkvæmdaaðilar geta lagt til tæki og mannskap. Votlendissjóðurinn skipuleggur framkvæmdir, tryggir að dregið sé úr losun koldíoxiðs og heldur utan um allt ferlið. Landgræðslan metur þau svæði þar sem endurheimta á votlendi og staðfestir að þær jarðir sem unnið er með séu raunverulega með votlendisjarðveg og að framkvæmdir séu faglega unnar. Stofnunin vottar síðar að framkvæmdir hafi skilað tilætluðum árangri.
Landeigendur
Allt framræst land er í eigu einhvers og því verður að vera góð samvinna milli landeigenda og Votlendissjóðsins um framkvæmdir. Tryggja verður að endurheimt á einu landi valdi ekki tjóni hjá nágrönnum t.d. varðandi flæði grunnvatns. Samvinna við sveitarfélagið er mikilvæg og að sátt sé um verkefnið. Landeigendur geta sjálfir endurheimt og fengið loftslagsávinninginn skráðan á sig, t.d. vegna kolefnisjöfnunar framleiðslu, eða orðið framkvæmdaaðilar og fengið greiddan kostnaðinn við að endurheimta votlendi á þeirra eigin jörð að uppfylltum skilyrðum og úttekt Landgræðslunnar.
Kaupendur
Þeir sem greiða inn í sjóðinn fá staðfestingu á framlagi sínu frá Votlendissjóðnum sem nýtir peningana til að endurheimta votlendi. Kaupendur og þeir sem framkvæma á eiginn kostnað geta skráð ávinninginn af því í sitt loftslagsbókhald. Landeigandi fær einnig staðfestingu á því að hafa sýnt samfélagslega ábyrgð og tekið þátt í að vinna að loftslagsmálum heimsins. Endurskoðendaskrifstofa fer yfir allt bókhaldið og metur ferlið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Heimsmarkmiðin eru margþætt og metnaðarfull og krefjast þátttöku og samstarfs ólíkra hagsmunaaðila. Starfssemi Votlendissjóðs styður beint við þrjú af sautján heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Það eru markmikið, þrettán, fjórtán og fimmtán.
Votlendissjóður
Árleyni 22 - 112 Reykjavík
Kennitala 620518-1230
Banki 537-26-516