Votlendissjóðurinn var stofnaður 30. apríl 2018 á Bessastöðum. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun, fjármagnaður af samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum í þeim tilgangi að endurheimta framræst votlendi en endurheimt votlendis er skjótvirkasta aðferðin til að ná árangri í loftlagsmálum hérlendis.
Endurheimt Votlendissjóðsins stöðvar losun þúsunda tonna koldíoxíðs sem annars færu út í andrúmsloftið. Jafnframt styrkir þessi leið líffræðilega fjölbreytni á endurheimtu landssvæði þar sem gróður og fuglalíf eflist og jákvæð áhrif geta orðið á vatnsbúskap í veiðiám þar sem áhrifanna gætir.
Votlendissjóðurinn endurheimti votlendi á fjórum jörðum árið 2019. Allar fóru jarðirnar í gegnum úttekt hjá Landgræðslunni til vottunar og staðfestingar gagnsemi aðgerðanna. Fyrst riðu á vaðið landeigendur á Hofi í Norðfirði og endurheimtu á sinni jörð. Þá voru endurheimtir þrír hektarar af verndara sjóðsins, forseta Íslands, á Bessastaða jörðinni. Þá var það fyrirtækið ÍSTAK sem lagði sjóðnum til atfylgi í Bleiks- og Krísuvíkurmýri en þar var endurheimt upp á samtals 53 hektara.
Í það heila endurheimti Votlendissjóður framræst land á 72 hekturum á síðasta starfsári. Samtals er það stöðvun útblásturs upp á 1.440 tonn á síðasta ári og margfaldað í 8 ár sem dæmi eru það 11.520 tonn af CO2 ígildum sem hætta að fara út í andrúmsloftið. Það er sambærilegt því að 720 bílar væru teknir úr umferð í eitt ár. Það samsvarar síðan 5760 fólksbílum í 8 ár. Það munar sannarlega um það.
Landgræðslan, samstarfsaðili Votlendissjóðs, heldur utan um stöðvun losunar verkefnanna okkar og færir í landsbókhald endurheimtar. Stofnunin endurheimti sjálf sambærilegt magn hektara á síðasta ári og því má tvöfalda þennan hugarreikning hér að ofan samfélaginu til heilla.
En Votlendissjóður væri ekki í neinum framkvæmdum ef ekki væri fyrir velviljaða og samfélagslega ábyrga jarðeigendur. Án þeirra framkvæmir sjóðurinn ekkert og það sama má segja um einstaklingana og fyrirtækin sem leggja sjóðnum lið með því að kolefnisjafna ferðalög, neyslu og starfsemi sína í gegnum Votlendissjóð.
Á síðasta ári var undirritaður þriggja ára samstarfssamningur milli Orkunnar og Votlendissjóðs. Með honum kolefnisjafnar Orkan sig í gegnum sjóðinn og gengur enn lengra því velunnarar sjóðsins geta sótt um greiðslulykla hjá Orkunni sem gerir þeim kleift að styrkja endurheimt Votlendissjóðs með sínum afslætti og Orkan leggur svo til mótframlag. Þetta framlag er uppá margar milljónir á ári og skiptir sköpum fyrir Votlendissjóð.
Í lok árs 2019 má því segja að sjóðurinn hafi náð nokkuð góðum tökum á verkefninu að endurheimta votlendi á Íslandi. Framundan er endurheimt hundruða hektara votlendis en nú þegar hefur Landgræðslan mælt og staðfest verkefni sem tilbúin eru til framkvæmda um leið og varptíma lýkur.
Skilningur og meðbyr hjá ráðafólki og almenningi eykst með hverju ári og framtíð sjóðsins er björt. Framundan eru tímar frekari afreka, loftslagi og náttúru Íslands til heilla.