Votlendissjóðurinn hefur í vetur tekið þátt í þverfaglegri vinnu Loftslagsráðs og Staðlaráðs um ábyrga kolefnisjöfnun. Tilgangurinn er að stuðla að sammæli um aðferðir við mælingar og útgáfu kolefniseininga, miðlæga skráningu á útgáfu þeirra og sammæli um ábyrgar yfirlýsingar um kolefnisjöfnun á samkeppnismarkaði. Fulltrúar framleiðenda og kaupenda kolefniseininga ásamt fulltrúum frá stjórnvöldum og sérfræðingum í loftslagsmálum hafa tekið þátt í vinnunni. Í framhaldi af þeirri vinnu er nú verið að stofna tækniráð sem mun vinna áfram með niðurstöður þessarar vinnu.
Ábyrg kolefnisjöfnun er grundvallarþáttur í heildstæðri loftslagsstefnu og hluti af vegferðinni að kolefnishlutleysi. Vottun kolefniseininga er talin ein helsta forsenda þess að hægt sé að nota þær á ábyrgan hátt til kolefnisjöfnunar; vottunarkerfið í heild þarf að vera óháð bæði seljendum og kaupendum og viðmiðin sem vottað er eftir þurfa að samræmast alþjóðlega viðurkenndri aðferðafræði.
Votlendissjóður
Árleyni 22 - 112 Reykjavík
Kennitala 620518-1230
Banki 537-26-516