Gróðurhúsaáhrif, loftslagsvá og vörn með votlendi

Feb 02, 2020
Þröstur Ólafsson stjórnarformaður Votlendissjóðs skrifaði grein í Fréttablaðið miðvikudaginn 29. janúar síðast liðinn. Þar sagði Þröstur meðal annars. "Fyrirtæki og einstaklingar verða loks að láta til sín taka og bregðast við. Góðvild og snoturt bros eru fátæklegt framlag til varnar loftslagsvánni. Meiri alvara þarf að fylgja. Við höfum verkfærin og vitum hvaða leiðir skila mestum og skjótustum árangri. Minnumst þess sem forngríski spekingurinn sagði, að leyndardómur frelsisins sé kjarkur.

Þegar jurtir vaxa draga þær koldíoxið (CO2) úr andrúmsloftinu og binda ýmist í bol sínum, stönglum eða blöðum. Að hausti falla blöð og stönglar til jarðar: bolir og greinar, þegar tré falla. Við eðlilegar aðstæður myndar þetta nýjan kolefnisríkan jarðveg, sem í aldanna rás verður að sverði, kolum, gasi eða olíu. Raki í jarðvegi og grunnvatn í mýrum dregur úr eða kemur í veg fyrir rotnum jurtaleifanna. Kolefni safnast upp. Þegar mýri er framræst kemst súrefni í samband við kolefni og koldíoxíð og fleiri gastegundir losna út í andrúmsloftið. Þegar svörður, kol, gas eða olía er unnið úr jörðu og brennt, losnar koldíoxíð (CO2) einnig út í andrúmsloftið. Aukinn styrkur koldíoxíðs í andrúmsloftinu veldur hlýnun á jörðinni og í höfunum. Því tölum við um gróðurhúsaáhrif efnisins og annarra efna sem valda hliðstæðum áhrifum. Þau eru öll mælanleg.

Binding og stöðvun losunar

Árleg heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi er talin vera um 14,8 milljónir tonna. Samkvæmt mælingum og útreikningum íslenskra vísindamanna, sem byggðar eru á sömu gögnum og aðferðafræði og skil landsins til losunarbókhalds SÞ, þá eiga um 2/3 af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda rót sína að rekja til framræsts votlendis hér á landi. Aðeins um þriðjungar heildarlosunar kemur því frá öðrum uppsprettum. Má til fróðleiks geta þess að almennar innanlands samgöngur losa „aðeins“ um 4% af heild. Þegar vatnsstaða í votlendi hækkar við að sléttfylla skurðina eða stöðva afrennsli þeirra, hættir koldíoxíð að losna úr votlendinu. Ef við viljum ná skjótum og öruggum árangri, þá liggur beinast við að endurheimta votlendi, jafnvel þótt það sé enn lauslega tengt losunarbókhaldi landsins.

Losunarstuðlar

Íslenskir vísindamenn hafa mælt og rannsakað áhrif mismunandi aðgerða sem beita má gegn loftlagsvánni með því að breyta landnotkun (Heimild Environice 2019). Þar koma einkum þrjár leiðir til greina; Skógrækt, landgræðsla og endurheimt votlendis. Beita verður þeim öllum, ef við viljum ná merkjanlegum árangri. Niðurstaða þeirra um mismunandi áhrif einstakra leiða koma fram í eftirfarandi losunar- og bindistuðlum m.v. árleg meðaltöl: Skógrækt eftir 1990: binding 6,2 tonn/ha/ár; Landgræðsla eftir 1990: binding 2,1 t/ha/ár; Framræst votlendi ræktað sem óræktað: losun 19,5 t/ha/ár. Með því að endurheimta votlendi má stöðva árlega losun sem því nemur. Þá er þess ógetið hve tímaþáttur losunaráhrifanna er mismikill eftir leiðum. Auðvitað verður að hafa nákvæmnisfyrirvara á þessum stuðlum. Langvinn, vöktuð reynsla kann að hnika þeim eitthvað til. Allir tilheyrandi fyrirvarar breyta þó ekki þessu: stóru drættirnir eru skýrir.

Veðrabrigði eða loftslagsvá

Flestar loftslagsvísindastofnanir hafa fyrir alllöngu sagt sannað og ganga nú út frá verulegri hættu á ofhitun jarðarinnar og lofthjúpsins verði ekki gripið til markvissra aðgerða um allan heim. Með vaxandi tíðni birtast nýjar hrollvekjandi niðurstöður og rökstuddar spár um þá vá sem vofir yfir, verði ekki gripið strax í taumana. Margir eru þó ósannfærðir. Þeir leita gjarnan á náðir forspárra kunningja eða spyrja dramblátan sjálfbirginginn, en þessir ráðgjafar telja að fátt sé að óttast, allt hafi þetta gerst áður. Þá hamast pólitískir lýðskrumarar gegn niðurstöðu vísindamanna. Örvæntingarfullar aðvaranir og nýjar ógnvekjandi rannsóknarskýrslur birtast títt þessi misserin. Versnandi ástand úthafanna, hefur þar verið í fyrirrúmi. Úthöfin eru heitari en nokkru sinni fyrr á mælingartímum, og hitnun þeirra fer hraðvaxandi. Hækkandi hitastig hafsins eykur veðurfarsöfgar, hvirfilvinda og ofsaúrkomu. Skógareldarnir í Ástralíu, Síberíu og Kaliforníu eru hluti þessara öfga. Hvað með nýlegan veðurofsa hér? Súrefnisfátækt hafsins leiðir af sér fiskidauða og skaðar aðrar lífverur sem og forðabúr hafsins. Nýjustu skýrslur segja að við séum rétt að byrja á forrétti hamfaranna. Hvað með fiskimiðin okkar? 

Þótt eflaust verði sótt um hefðbundna og réttmæta undanþágu, er óljóst hvert senda á beiðnina. Þá mæla vísindastofnanir einnig skertan styrk golfstraumsins. Verði alvarlegur brestur í úthöfunum og ferlar hafstrauma riðlast, mun það hafa djúpstæð áhrif á lífsskilyrði okkar. Þar megum við enga áhættu taka. Við björgum ekki heiminum en framlag okkar skiptir máli, því losun okkar er hlutfallslega mikil. Ekki má endalaust hlusta á þá sem tortryggja hávísindalegar niðurstöður, eða leyfa lýðskrumandi óheillakrákum að trufla og tefja. En ekkert gerist af sjálfu sér. Allt kostar vinnu og peninga. 

Fyrirtæki og einstaklingar verða loks að láta til sín taka og bregðast við. Góðvild og snoturt bros eru fátæklegt framlag til varnar loftslagsvánni. Meiri alvara þarf að fylgja. Við höfum verkfærin og vitum hvaða leiðir skila mestum og skjótustum árangri. Minnumst þess sem forngríski spekingurinn sagði, að leyndardómur frelsisins sé kjarkur.
By Ingunn Kro 05 Nov, 2024
Er tækifæri fyrir þig í endurheimt votlendis?
By Einar Þór Bárðarson 25 Oct, 2022
Ein af aðalforsendunum í þessu ferli er að fá meðaltalslosun hektara á Íslandi staðfesta og verkefni Eflu þessa daganna er að taka saman öll rannsóknargögn Landgræðslunnar og Landbúnaðarháskólans og setja saman í greinar sem fengju ritrýnda meðferð í viðurkenndum vísindaritum.
By Einar Þór Bárðarson 01 Sep, 2022
Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs eru veitt starfsemi eða einstaklingi á Norðurlöndum sem sett hefur fordæmi með því að samþætta virðingu fyrir umhverfinu í starfi sínu, eða með því að sýna frumkvæði á annan hátt að sértækum aðgerðum umhverfinu til góða
By Einar Þór Bárðarson 29 Jun, 2022
Landgræðslustjóri gerir alvarlegar athugasemdir við rannsókn á losun ræktarlands sem birt var á dögunum. Í grein sem hann birtir í Bændablaðinu segir hann "Úttektar- aðilar eru fljótir að sjá í gegnum óvönduð vinnubrögð." Greinina má lesa í heild sinni hér að neðan.
By Einar Þór Bárðarson 22 Apr, 2022
Í dag föstudaginn, 22 apríl afhend forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, „Vonina“, þakklætis-viðurkenningu Votlendissjóðs .
By Einar Þór Bárðarson 06 Apr, 2022
Ný stjórn Votlendissjóðs  kom saman á sínum fyrsta stjórnarfundi síðasta mánudag.
By Einar Þór Bárðarson 24 Mar, 2022
Síðustu daga hafa verið afgreidd tvö framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdir á vegum Votlendissjóðs 
By Einar Þór Bárðarson 24 Mar, 2022
Votlendi njóta sérstakrar verndar sa mkvæmt náttúruverndarlögum
By Einar Þór Bárðarson 24 Mar, 2022
Rýnihópur vélaverktaka með reynslu a f endurheimt votlendis kom að gerð námskeiðsins og sammældist um að námskeiðið væri afar gagnlegt .
By Einar Þór Bárðarson 17 Mar, 2022
Árskýrsla Votlendissjóðs aðgengileg
More Posts
Share by: