Þröstur Ólafsson
Svör við skrifum Björns Bjarnsonar um Votlendissjóð
Björn Bjarnason fyrrv. alþm. og ráðherra fjallar um loftlagsmálin í pistlinum Umræðan í Morgunblaðinu 30. okt. s.l. Á einum stað fjallar hann um Votlendissjóð og viðleitni hans til að draga úr eða stöðva losun koldíoxíðs úr framræstu íslensku votlendi.
Björn spyr þar nokkurra spurninga sem nauðsynlegt er að svara til að forða misskilningi og um leið að upplýsa um staðreyndir málsins. Í greininni er fullyrt að landeigendur vilji ekki starfa með Votlendissjóði og Landgræðslunni að endurheimt votlendis. Það er ekki rétt. Á vegum Votlendissjóðs hafa þegar verið stöðvuð 8477 tonn af koldíoxíðsígildum sem ella hefðu farið út í andrúmsloftið. Það samsvarar losun 4738 nýrra bíla.
Spurt er hvort bændur þurfi að afsala sér eignarrétti á því landi sem endurheimt er sem votlendi með milligöngu Votlendissjóðs. Svarið við þessu er afdráttar-og undantekningarlaust Nei. Votlendissjóður hefur aldrei farið fram á eignarafsal. Hins vegar hefur það verið rætt að eðlilegt sé, að fyrir séu í samningum við landeigendur ákvæði þess eðlis að næstu 25 árin eftir ofanímokstur megi ekki framræsa umrætt land að nýju, nema endurheimta jafnmarga hektara annars staðar á móti. Þegar greinarhöfundur vitnar til reynslu bænda af viðskiptum við Votlendisjóð væri fróðlegt að vita til hvaða viðskipta hann sé að vitna. Því miður eru viðskipti starfandi bænda við sjóðinn ekki nógu mörg, en þau sem til staðar eru hafa gengið vel og án þess að við höfum orðið vör við alvarlega vankanta eða óánægju þeirra. Því væru upplýsingar um slæma reynslu bænda af viðskiptum við sjóðinn okkur dýrmætar.
Þá spyr Björn hvort fyrir liggi upplýsingar um “ hve mikil kolefnisbinding felist í endurheimt votlendis ? ” Ef spurningin fjallar um hve mikið framræst votlendi losar af koldíoxíðígildum þá er svarið 19,5 tonn á hvern framræstan hektara. Þessi tala sem íslenskir vísindamenn hafa notað um árabil og staðfest hefur verið af Landgræðslunni með mælingum er meðaltal. Sum staða er losunin mun meiri annars staðar minni. Votlendissjóður endurheimtir hvergi framræst land fyrr en Landgræðslan hefur staðfest með mælingum að losunin sé það mikil að ofanímokstur borgi sig. Votlendissjóður leggur sjálfur ekkert sjálfstætt mat á losun landsins en Landgræðslan fylgist með og mælir árangur endurheimtarinnar í þrjú ár að verki loknu.
Enn spyr Björn hvort hvort gildi ólíkra aðferða hafi verið metið ? Landgræðslan hefur um langt árabil fylgst með aðferðafræði við að hækka grunnvatnsstöðu í framræstu votlendi í nágrannalöndum okkar. Fulltrúar sjóðsins og Landgræðslunnar hafa í tvígang heimsótt Skotland til að kynnast aðferðafræði þeirra, sem hafa áratuga reynslu af endurheimt votlendis. Á þessari reynslu byggir sjóðurinn og Landgræðslan sínar framkvæmdir.
Að lokum veltir Björn fyrir sér alþjóðlegri vottun kolefniseininga, hvort Votlendissjóður hafi slíka vottun og bætir við “að slík vottun sé forsenda verðmats og þar með markaðsviðskipta við sjóðinn”. Alþjóðleg vottun með kolefniseiningar úr endurheimtu votlendi er skammt á veg komin erlendis. Votlendissjóður hefur lagt í þá faglegu vinnu að fá mat sérfræðinga á því með hvaða hætti sjóðurinn geti fengið alþjóðlega vottungildi á einingar þær sem hann endurheimtir og gert þær gjaldgengar heima sem erlendis. Sjóðurinn hefur þegar verðmetið einingar sem seldar eru þeim sem jafna vilja kolefnisspor sín. Fyrrnefnd alþjóðleg vottun er dýr og gerðar eru miklar faglegar kröfur til vinnubragða Landgræðslunnar sem er þarna í lykilstöðu. Þegar allri undirbúningsvinnu er lokið munum við semja við erlenda vottunarstofu um alþjóðlega vottun kolefniseininga. Þá fyrst verða einingar þær sem bændur/landeigendur munu fá í sínar hendur, í lok samningstíma við Votlendissjóðinn, að alþjóðlegri söluvöru, að því tilskildu að viðunandi markaðir séu til staðar. Starfandi bændur munu þó væntanlega geta nýtt sér einingarnar, sem Landgræðslan hefur staðfest, til að kolefnisjafna búrekstur sinn, þótt alþjóðleg vottun liggi enn ekki fyrir. Mikilvægt er þó að muna að með endurheimt votlendis erum við að minnka kolefnisspor landsins/þjóðarinnar.
Votlendissjóður er einkaframtak og settur á stofn af samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum. Hann er ekki hagnaðardrifinn og stjórnarmenn fá enga þóknun fyrir störf sín. Sjóðurinn býr ekki yfir neinu opinberu boðvaldi og nýtur einskis stuðnings opinberra aðila að því undanskildu að sjóðurinn starfar náið með Landgræðslunni. Það mikla og örlagaríka mál, loftlagsváin, sem Votlendissjóðurinn er stofnaður til að vinna gegn, er alvarlegra en svo að flimtingar og tortryggni í hans garð sé viðeigandi. Benda má þeim sem áhuga hafa á starfsemi hans eða upplýsingum um reglur hans og vinnubrögð, á heimasíðu Votlendissjóðs, www.votlendi.is Fjarri er því þó að við sem að honum stöndum teljum að hann sé hafinn yfir gagnrýni. Hún þarf þó að vera byggð á réttum upplýsingum og málefnalegri þekkingu.
Höfundur er formaður stjórnar Votlendissjóðs
Votlendissjóður
Árleyni 22 - 112 Reykjavík
Kennitala 620518-1230
Banki 537-26-516