Endurheimt votlendis (grein sem birtist í Fréttablaðinu 2. október)
Störf Votlendissjóðsins byggja á vinnu sérfræðinga Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskólans, Landgræðslunnar og annarra sem rannsakað hafa kolefnisbúskap og losun koldíoxíðs frá framræstu votlendi í fjölda ára.
Rannsóknir sýna að framræst votlendi ber ábyrgð á um 60% losunar CO2 á Íslandi. Inni í því hlutfalli er ekki tekið tillit til alþjóðlegs flugs yfir Íslandi en allar aðrar samgöngur og iðnaður eru innifalin. Rannsóknir sérfræðinga Landgræðslunnar og háskólasamfélagsins gefa til kynna að losun koldíoxíðs úr framræstu votlendi sé að meðaltali um 19.5 tonn á hektara hér á landi. Það eru tölur sem eru í samræmi við hliðstæðar rannsóknir á hinum Norðurlöndunum.
Framræst votlendi er mýri sem hefur verið þurrkuð upp með skurðum. Skurðakerfi landsins vegna framræsts votlendis er yfir þrjátíu þúsund kílómetrum að lengd en meira en helmingur lands í kringum þá eru ekki nýtt í dag. Votlendissjóðurinn var stofnaður fyrst og fremst til að endurheimta þetta ónotaða land. Aðgerðin er viðurkennd aðgerð í baráttunni við loftlagsbreytingarnar af milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC).
Auk þess er endurheimt votlendis virk leið til að styrkja líffræðilega fjölbreytni svo sem gróður og fuglalíf. Þá benda rannsóknir Haf og vatns, áður Veiðimálastofnunar, á að endurheimt votlendis geti í mörgum tilfellum bætt vatnsgæði í ám og vötnum og dregið úr flóðahættu í aftakaúrkomu.
Votlendissjóður endurheimti votlendi á 72 hekturum árið 2020 sem er stöðvun útblásturs sem nemur 1.440 tonnum sem er sambærilegt því að taka 720 bíla úr umferð í ár.
Mikilvægt er að halda því til haga að Votlendissjóðurinn er sjálfseignastofnun sem er fjármögnuð af einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum með ríka samfélagsábyrgð.
Votlendissjóður leitar að fleiri áhugasömum landeigendum, til samstarfs um endurheimt og það er mikið fagnaðarefni hversu meðvitaðir og velviljaðir landeigendur um allt land eru til þess að vinna að endurheimt votlendis með sjóðnum.
Hægt er að kynna sér gagnsemi endurheimtar votlendis á votlendi.is.
Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, stjórnarmaður
Ingunn Agnes Kro, stjórnarmaður
Votlendissjóður
Árleyni 22 - 112 Reykjavík
Kennitala 620518-1230
Banki 537-26-516