Endurheimt framræsts votlendis er ein af þeim aðgerðum sem Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) viðurkennir sem gilda aðgerð til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum.
Þórunn Inga setti fundinn og bauð gesti velkomna. Fyrstur í pontu var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og verndari Votlendissjóðsins. Hann fór í ávarpi sínu yfir sögu Bessastaða og landnytja þar. Þar hafi hið unga lýðveldi viljað gera Bessastaði að fyrirmyndarbýli, sem endurspeglaði möguleika og styrk landbúnaðar í landinu. „Og skurðir voru grafnir,“ bætti hann við og sýndi hvernig votlendi var ræst fram til að nýta landið. Á sjöunda áratugnum hafi svo búskapur lagst af á Bessastöðum, því ekki hafi verið talið fara saman búskapur og bústaður forseta. Guðni rifjaði upp grein Halldórs Laxness frá 1970, Hernaðurinn gegn landinu, þar sem Nóbelsskáldið hafi meðal annars beint spjótum sínum að framræstu landi og spurt hvort ekki væri tilefni til að verðlauna menn fyrir að moka ofan í skurðina aftur. Rakti hann svo hvernig endurheimt votlendis hafi hafist á Bessastöðum hjá forvera hans í starfi, Ólafi Ragnari Grímssyni, og svo verið haldið áfram af krafti frá sumri 2018 og til dagsins í dag. Nú séu fyrrum tún á góðri leið með að verða mýri á ný.
Þá fjallaði Sunna Áskelsdóttir, fulltrúi Landgræðslu ríkisins, um endurheimt votlendis og tengslin við loftslagsmál. Útreikningur á samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda væri nokkuð flókinn, en niðurstöður íslenskra rannsókna væru í samræmi við stuðla IPPC, þótt áhrif losunar væru mismunandi eftir umhverfisaðstæðum hverju sinni. Eins fjallaði hún um náttúrufar í votlendi.
Næstur í pontu var Sigurður Már Einarsson, fiskifræðingur á sviði ferskvatnslífríkja hjá Hafrannsóknastofnun, en hann fjallaði um áhrif endurheimtar votlendis á vatnsbúskap veiðiáa. Benti hann á að veruleg miðlun væri frá votlendi í árnar sem bætti lífsskilyrði í ánum. Þetta skipti sérstaklega máli á þurrkatímum, líkt og hér hafi verið síðasta sumar. Um leið kom fram í máli hans að endurheimt raskaðra vistkerfa, svo sem vatna sem horfið hafa vegna framræslu, getur tekið langan tíma, en mögulegt væri að hjálpa framvindunni, svo sem með því að planta gróðri sem styðji við ferlið.
Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur hjá Environice, flutti svo erindi sem nefndist „Er klukkan orðin fimm? Vangaveltur um tímasetningu björgunaraðgerða“. Í erindi sínu fjallaði hann um stöðu umhverfismála og þróun styrks koldíoxíðs í andrúmsloftinu og hvort of seint sé að grípa til aðgerða sem snúið geti þróuninni við. Innistæða til losunar verði búin á gamlárskvöld 2027. „Þetta er sem sagt neyðarástand,“ sagði hann og bætti við að mannkynið væri að nálgast þann stað að of seint sé að snúa við. Benti hann á að endurheimt votlendis væri skilvirk leið og fljótleg til að hefta útblástur, og þess vegna kæmu áhrif slíkra aðgerða fyrr fram en til dæmis skógræktar, sem kannski hefðu sambærileg áhrif, en tækju mun lengri tíma.
Samfélagsleg ábyrgð og loftslagsvandinn var svo yfirskrift erindis Eyþórs Eðvarðssonar, stjórnarformanns Votlendissjóðsins. Fjallaði hann um sjóðinn, tilurð hans og tilgang.
Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs, flutti svo sjötta og síðasta erindið og fjallaði um samstarf Orkunnar og Votlendissjóðsins, en lykil- og korthöfum Orkunnar býðst að kolefnisjafna eldsneytiskaup sín með endurheimt votlendis. Við tóku svo almennar umræður og spurningar úr sal áður en fundi var slitið á tólfta tímanum.